Það sem veitir þér miklum óþarfa sársauka og óhamingju í lífinu eru hugsanir um fortíðina eða framtíðina. Stanslausar áhyggjur um framtíðina og biturleiki út í fortíðina skapa þér ýmisskonar vandamál sem þú nærir enn frekar með því að vera stöðugt að veita þeim athygli.
Ég er alls ekki að segja að það sé alfarið slæmt að hugsa um fortíðina og framtíðina. Það er okkur eðlislægt að hugsa og hreinlega nauðsynlegt. Mannveran þróaðist með því að hafa áhyggjur af allskonar mögulegum hættum eins og hverjum ætti að treysta, hvaða dýr ætti að forðast, hvaða svæði ætti að láta vera og hvenær næsti matarskammtur myndi koma.
Í dag þurfum við minna af þessum stöðugu áhyggjum að halda. Það sem við þurfum hinsvegar á að halda er að helga eins miklum tíma í núverandi augnabliki og við getum. Afhverju segi ég það? Jú til að slökkva á þessu stöðuga áreiti og þessum tilgangslausu vandamálum sem við nærum með því að hugsa um fortíðina og framtíðina.
Geturu nefnt mér eitthvað vandamál sem á sér stað í núverandi augnabliki, hér og nú? Það er ekki til vandamál í núinu. Allt sem hefur gerst og mun gerast, mun eiga sér stað í núinu. Þið eruð kannski á því að núvitund sé ofnotaður og óspennandi hippafaraldur en hann hefur þónokkuð til síns máls. Að helga tíma núverandi tíma í augnabliki er tengt við betri vellíðan, samskipti, sjálfþekkingu, einbeitingu, hugarstarf, svefn og lengi mætti telja.
Hvað meina ég með því að helga tíma í núverandi augnabliki? Það er ansi vítt. Núvitund er ekki bara að hugleiða í búdda stellingunni. Þó hugleiðsla sé frábær þá eru margar aðrar leiðir til að vera í núinu. Þú getur t.d. verið í núinu þegar þú ferð á æfingu, í verkefnavinnu í skólanum/vinnunni, í samtölum við aðra, þegar þú ert að borða, þegar þú ferð í kalda pottinn, í matvörubúðinni, þegar þú vaskar upp og í göngutúrnum.
Ég er ekki að segja að þú verður að vera öllum stundum með athyglina á núverandi augnabliki. Það er ekki hægt í nútíma heimi og eflaust eitthvað sem þú vilt ekki. Hinsvegar þurfum við að bæta getuna okkar til að skipta á milli þess að vera stöðugt hugsandi og að vera meðvituð um það sem við erum að gera hverju sinni. Jafnvægi milli þess að hugsa og vera í núinu.
Finndu þína tegund af núvitund. Helgaðu tíma í þessari núvitund á hverjum degi. Komdu því í venju. Þú munt ekki sjá eftir því. Þú verður meðvitaðari um sjálfan þig og aðra í kringum þig. Þú sérð lífið með öðruvísi augum. Samböndin þín við aðra verða betri. Svefninn þinn bætist. Þú öðlast betri einbeitingu. Þú munt hafa betri stjórn á tilfininngunum þínum. Helgaðu tíma í núverandi augnabliki.