Ég veit ekki með ykkur en í mjög langan tíma vissi ég ekki að það væri hægt að lesa bækur sem myndi hjálpa manni að verða betri einstaklingur eða öðlast nýja sýn á heiminn. Ég vissi heldur ekki að bækur gætu verið svona áhugaverðar. Ég vissi heldur ekki að það væri til svona mikið af bókum. Síðan ég fattaði þetta allt saman hef ég lesið nokkrar bækur og áttað mig á að það eru töluvert fleiri bækur sem mér langar til að lesa í nákominni framtíð.
Hér að neðan eru þær bækur sem hafa náð til mín í þeim skilningi að mér fannst þær áhugaverðar og ég lærði eitthvað af þeim. Þær tengjast flest allar sálfræði en margar hverjar eru heimspekilegar. Bækurnar eru ekki í neinni sérstakri röð.
Frábær bók um upplifun Viktor Frankls í fangabúðunum í Auschwitz. Rosalegt að lesa frá aðstæðunum sem fangarnir þurftu að lifa við. Frásögn Viktors kennir okkur að það er á endanum undir okkur sjálfum komið hvernig við veljum að bregðast við aðstæðum í lífinu og að það sé hægt að finna tilgang í hryllilegum kringumstæðum.
Fjallar um venjur, hversu mikil áhrif þær hafa á lífið okkar, hvernig þær mótast og hvernig við getum breytt þeim til betri vegar. Venjur eru stór hluti af lífinu okkkar og því mikilvægt að vita í grunninn hvernig þær virka.
Bók um hamingju. Hún færir rök fyrir því að hamingjan okkakr sé 50% gen, 10% kringumstæður og 40% hvernig við hugsum og hegðum okkur. Bókin inniheldur skemmtileg inngrip úr jákvæðari sálfræði sem hægt er að hagnýta út í lífið.
Skemmtileg og öðruvísi bók sem tekur annað sjónarhorn á að efla sig í lífinu og að öðlast ánægju frá því. Höfundurinn Mark talar beint út frá hjartanu og einblínir á að takast á við þjáningu með heiðarleika og hugrekki að leiðarljósi.
Þessi bók kenndi mér mikið inn á plöntufæði og hvað sé best fyrir mig að borða til að uppfylla allar mínar næringarþarfir. Ásamt því fer hann yfir hvernig plöntufæði getur komið í veg fyrir ýmsa lífsstílssjúkdóma eins og t.d. hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein og sykursýki.
Fjallar um 12 lífsrelgur með undirliggjandi áherslu um að taka ábyrgð á sínu eigin lífi og í kjölfarið mun það verða tilgangsríkara. Sálfræðingurinn Jordan Peterson byggir bókina upp á rannsóknum úr sálfræði, ævafornum sögum, þróun mannkyns og taugavísindum. Ég tengdi vel við reglurnar og hef hagnýtt þær inn í mitt eigið líf.
Frábær bók fyrir alla sem vilja bæta leiðtogahæfni í lífi og starfi. Hagnýt bók sem fær þig til að kynnast sjálfum þér og öðru fólki í lífinu betur. Brené talar meðal annars um fegurðina sem fylgir því að vera varnalaus, að sýna hugrekki þrátt fyrir ótta, skömm, gildi, tilfinningar, þrautseigju og hvernig við getum byggt upp traust.
Í bókinni bendir Rosling á að flestir hafi rangt fyrir sér um stöðu heimsins í dag. Hann sýnir fram á að flestir trúa að heimurinn sé fátækari, óheilsusamlegri og hættulegri heldur hann í rauninni er. Fólk heldur að heimurinn sé að verða verri en tölurnar sýna okkkur að svo er ekki. Í bókinni talar hann um að tilfinningin okkar fyrir stöðu heimsins sé verulega skekkt og því bendir hann á mikilvægi þess að líta á staðreyndir. Aðal útgangspunktur bókarinnar er að heimurinn er á betri stað heldur en við höldum – þó svo það sé margt sem þarf að vinna í og laga.
Bókin fjallar um sálfræði og andlega viðleitni (Spirituality) og hvernig frekari þekking á þessum tveimur viðfangsefnum getur aukið sjálfsþekkingu og vellíðan. Bókin inniheldur leiðir til að eiga við hugann í nútímaheimi og fjallar mikið um meðvitund, athygli og núvist. Í bókinni eru æfingar sem styðja við þróun lesandans í sinni vegferð í lífinu.
Bókin fjallar um helstu vandamál sem mannkynið þarf að fást við núna og í framtíðinni. Vandamálin tengjast meðal annars tækni, pólitík, tilvistarklemmu og kjarnorkuvopnum. Með 21 lexíum stingur Harari upp á leiðum til að eiga við lífið þegar það inniheldur stöðugar breytingar og veltir fyrir sér mikilvægum spurningum sem við þurfum að spyrja okkur sjálf til að lifa af.
Frábær bók um einmanaleika og mikilvægi félagslegra tengsla. Hún færir rök fyrir því að einmanaleiki sé alheims vandamál og greinir frá leiðum til þess að efla félagsleg tengsl og að vinna á móti einmanaleika.
Góð bók um hugrekkið sem felst í því að tilheyra sjálfum sér fyrst og fremst en ekki breyta sjálfum sér til þess að passa inn með öðrum. Hún fjallar um að gera það sem er rétt, ekki það sem er auðvelt. Hún imprar á að sýna styrkinn í að tilheyra allstaðar og ekki á neinum stað.
Frábær bók um leiðtogahæfni með fókus á vinnumarkaðinn. Simon talar mikið um þróunina og lífeðlisfræðina á bakvið það að ná árangri og líða vel. Hann leggur sérstaklega áherslu á samvinnu og traust. Hann fjallar um mikilvægi taugaboðefna líkt og Oxytósín og Serótónín upp á að tengjast öðrum og hvernig dópamín getur haft bæði góð og slæm áhrif á lífið okkar. Rauði þráðurinn er leiðtogar eiga alltaf að hugsa um fólkið sitt en ekki tölur. Þegar leiðtoginn setur fólkið sitt í fyrsta sæti mun það standa með honum í gegnum súrt og sætt. með traust og samvinnu að leiðarljósi mun fyrirtækið verða líklegri til að lifa af krefjandi tíma og ná árangri.
1984 er vísindaskáldsaga um dystópíu – að heimurinn sé orðinn að vondum stað. Bókin kom út árið 1949 en í henni spáir Orwell fyrir um hvernig árið 1984 verður með áhugaverðri frásögn. Bókin fjallar í grunninn um áhrif alræðis, ströngu eftirliti og kúgandi öflun einstaklinga og samfélags. Í heiminum er stöðugt stríð, strangt eftirlit á öllum í samfélaginu (þar sem þú verður að hugsa og hegða þér á ákveðinn máta því annars ertu drepinn), afneitun á staðreyndum úr sögu fortíðarinnar (það er breytt sumum gögnum og önnur algjörlega þurrkuð út) og mikill áróður ríkir. Furðulega margt í bókinni er í áttina að því sem er að gerast í samfélaginu í dag.
Margir hafa lesið og mælt með þessari bók. Hún fjallar í grunninn um meðvitaða athygli (núvitund) og hvað egóið (hugsanir um sjálfan þig, fortíðina og framtíðina) veldur mikilli óþarfa þjáningu í lífinu. Það sem ég lærði hvað mest af þessari bók var að verða ,,þögli áhorfandinn” á hugsunum mínum og grípa þær. Þannig stjórna þær hugsanir mér ekki eins mikið og ég næ mikið betra valdi á þeim. Afleiðingin verður sú að ég ver meiri tíma í það sem skiptir raunverulega máli – allt það sem ég er að upplifa á núverandi augnabliki.
Akademísk bók um seinni bylgju jákvæðrar sálfræði. Ég heillaðist af bókinni þar sem hún fjallar um að jákvæð sálfræði er ekki bara jákvæð – heldur fæst hún við erfið viðfangsefni eins og tilgang í lífinu, áfallastreituþroska, dauðann og margt fleira. Rauði þráðurinn í bókinni er að þó svo það er óþægilegt og krefjandi að tækla erfiðar tilfinningar, hugsanir, atburði og aðstæður, þá munu þau óþægindi skila sér í auknum persónulegum vexti síðar meir.
Hvetjandi bók af manni sem var árangursríkur lögfræðingur en á sama tíma sófakartafla og háður eiturlyfjum. Í bókinni sinni segir hann frá sinni vegferð í átt að verða ultra maraþon hlaupari sem nærist einungis á plöntufæði. Rich á stóran þátt í því að ég ákvað að prófa plöntufæði á sínum tíma.
Með því að lesa Sapiens lærði ég meira um þróunina og öðlaðist frekari þekkingu um af hverju mannfólkið er eins og það er í dag og hvað hefur mótað það. Mér fannst mjög áhugavert að lesa hvernig mannfólkið lifði, hvernig samfélögin voru uppbyggð og hvernig mannfólkið háttaði sínum venjum og athöfnum fyrir mörg þúsund árum. Ég mun lesa þessa aftur einn daginn.
Þetta er flóknasta bók sem ég hef lesið. Ég las hana yfir heilt sumar þar sem ég las 10 blaðsíður í einu og skrifaði svo um það sem ég las til að öðlast frekari þekkingu. Það tók mig um 3-4 tíma á hverjum degi. Ég sé þó alls ekki eftir þessum lestri. Bókin kenndi mér á hvernig við sjáum heiminn, hvernig við högum okkur og öðlumst merkingu í honum. Ásamt því samtvinnar hann goðsögur, taugafræði og rannsóknir úr sálfræði sem hjálpar manni almennt að skilja sjálfan sig og lífið betur. Mæli með ef þú hefur mikinn tíma og hefur þrautseigjuna í að eiga við flókna efni bókarinnar.